top of page

Dalir

Myndir og ferðasögur af ferðum mínum að heimahögunum. Ég hef sett mér það markmið að skrásetja Dalasýslu í myndum á næstu árum og byrja á vestursýslunni, út frá mínum æskuslóðum í Sælingsdalstungu

Verkefnið

Ég hef einhverra hluta vegna ekki verið upptekinn af því hvaðan ég kem. Ég flutti að heiman, frá Sælingsdalstungu, 18 ára gamall og hef því miður eiginlega ekkert komið vestur síðan þá, nema til að heimsækja foreldra mína, reyndar skammarlega sjaldan. En kannski er það bara af því að ég er orðinn miðaldra, að ég hef fengið mikinn áhuga á að kynnast æskuslóðunum miklu betur.

Ég spilaði við útför ömmu minnar, Helgu Jónsdóttur, í ágúst 2024 og þegar ég var að velja tónlist fyrir útförina fannst mér nauðsynlegt að sungnir yrðu textar eftir Dalaskáldin. Við það að leita að viðeigandi textum eftir þau, þá kviknaði einhver áhugi hjá mér að heimsækja Dalina mun oftar.

Ég hef starfað sem tónlistamaður frá því ég flutti að heiman en síðustu árin hef ég verið með smá aukavinnu í ljósmyndun, og þá nær eingöngu náttúruljósmyndun. Ég mynda mest dýr og landslag og hef mest verið að mynda landslagið á NA-landi. Það er svo margt stórbrotið að sjá hér og myndefni allsstaðar. Dalirnir hafa vissulega ekki sömu háu og tignarlegu fjöllin, jökulárnar og fossana, háhitasvæðin, fuglabjörgin o.s.frv. Og ég hef einhvernveginn ekki alveg áttað mig á fegurðinni, en það er bara af því að ég hef ekki opnað augun fyrir henni. Ég veit ósköp vel að það eru ótal gullfallegir staðir í Dalasýslu til að mynda. Maður er kannski bara svolítið blindur á hana sem ungur maður, alinn upp í henni. Og síðan þá hef ég ekki mikið verið á svæðinu.

Ég fékk þá hugmynd um daginn að skrásetja Dalasýslu í myndum. Pabbi (Jón frá Sælingsdalstungu) hefur hjálpað mér mjög mikið með því að senda á mig allskonar staði sem ég hafði ekki hugmynd um, en hann þekkir Dalina svo vel. Ég er líka búinn að vera að lesa bækur um Dalina og grúska í kortum. Núna er ég að safna stöðum til að mynda inn á kort og markmið mitt er að taka mest myndir af landslagi, en einnig af einhverjum mannvirkjum, bæjum, dýralífi, gróðri o.s.frv. Veit ekki alveg með mannlífið. Ég ætla mér ekki að leggja áherslu á merka sögulega staði bara vegna sögunnar, heldur bara finna fallegt myndefni. Ég er kominn að merkja á annað hundrað staði hjá mér.

Ég hugsaði mér að reyna að gera þetta á einu ári, mynda alla Dalasýslu á öllum árstíðum.

Það var auðvitað algjörlega út í hött og ég áttaði mig á því að ég þarf að tvískipta verkefninu. Ég ætla því að byrja á vestursýslunni, í kring um mínar æskuslóðir og mun örugglega vera 2-3 ár að mynda bara hana. Ég skýst ekki vestur í hvert skipti sem ég sé góða veðurspá, þar sem ég er búsettur í Svarfaðardal, en mun vonandi koma allmargar ferðir á næstu árum.

bottom of page